Íslenski boltinn

Fagnaðartilburðir Stjörnumanna vekja enn athygli

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Leikmenn Stjörnunnar eru langt frá því að vera gleymdir úti í heimi fyrir markafögnin frægu á síðasta ári. Vinsæl auglýsingaherferð fyrir spænsku úrvalsdeildina þar í landi fyrr í haust var byggð á markafögnum Stjörnumanna og virðist sem herferðin hafi endurvakið áhugann.

Jóhann Laxdal, Daníel bróðir hans og Halldór Orri Björnsson eru meðal leikmanna Stjörnunnar sem boðnir voru út til Lundúna í síðustu viku.

„Við vorum fengnir í sjónvarpsþátt sem heitir The Great Football Experiment. Þar þurftum við að kenna þeim einhver fögn og hafa gaman að þeim, það var mjög fínt" segir Jóhann sem skilur ekkert í því af hverju áhuginn erlendis lifir enn, rúmu ári eftir hina svkölluðu 15 mínútna frægð. „Þetta er alveg svakalegt, ég hélt að þetta væri löngu búið en þetta hættir aldrei."

Jóhann segir þá félaga í Stjörnunni alls ekki vera orðnir ríkir á öllu umstanginu. „Við erum ekki að fá mikið í vasann, þegar við vorum í London í síðustu viku var okkur boðið á leik með Chelsea"

Þýska fjölmiðlafyrirtækið Sportfive á sjónvarpsréttinn á Pepsídeildinni og þurfa erlendar sjónvarpsstöðvar leyfi til að nota myndefni með Stjörnufögnum í deildinni. Phillip Maenner, svæðisstjóri Sportfive fyrir Ísland vill ekki upplýsa Stöð 2 um hversu mikið fyrirtækið hagnast aukalega á því að selja sýningarrétt á markafögnum Stjörnunnar en segir áhugann mikinn.

„Það var mikil eftirspurn, sérstaklega í fyrra. Sjónvarpsstöðvar úr öllum heimshornum hafa sýnt þessi margafögn Stjörnunnar. Þetta var því góð markaðssetning fyrir íslenska fótboltann og færði hann nær umheiminum," segir Philip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×