Fótbolti

Sér ekki eftir því að hafa farið til Rússlands

Kamerúninn Samuel Eto´o sér ekki eftir því að hafa yfirgefið Inter og farið til Rússlands. Hann er sannfærður um að hafa tekið rétta ákvörðun.

Eto´o spilar nú með Anzhi Makhachkala og er hæstlaunaði leikmaður heims með stjarnfræðileg mánaðarlaun.

"Það gagnrýndu mig margir þegar ég fór en ég tel mig hafa tekið rétta ákvörðun. Mér líður mjög vel í Rússlandi og hef ekki í hyggju að snúa aftur til Vestur-Evrópu," sagði Eto´o.

Hann hefur meðal annars verið orðaður við PSG sem ætlar að eyða miklum peningum næstu misseri.

"PSG? Við sjáum hvað gerist ef það er einhver alvara í því. Ég er aftur á móti sáttur hér og hef ekki í hyggju að skipta aftur um umhverfi."

Eto´o er samningsbundinn Anzhi til ársins 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×