Fótbolti

Fengu 430 þúsund króna sekt fyrir byssu-fagnið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fagnið umdeilda.
Fagnið umdeilda. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guadalajara frá Mexíkó hefur sektað tvo leikmenn sína fyrir það hvernig þeir fögnuðu marki í leik liðsins á dögunum. Annar leikmaðurinn þóttist þá skjóta hinn í höfuðið en það varð í kjölfarið allt vitlaust í Mexíkó þar sem eiturlyfjastríðið hefur kostað yfir 44 þúsund manns lífið.

Marco Fabian de la Mora skoraði þrennu í leiknum sem Guadalajara vann 5-2 á móti nágrannaliðinu í Estudiantes um síðustu helgi. Hann og Alberto Medina, sem fagnaði með honum, fengu báðir sekt upp á 430 þúsund íslenskar krónur.

„Ég sé mikið eftir því sem gerðist. Þegar ég sá myndbandið fylltist ég af reiði og eftirsjá að hafa gert grín að því að taka mannslíf," sagði De la Mora.

Báðir leikmennirnir borguðu ekki bara sektina sína því að þeir gáfu einnig milljón mexíkanskra pesóa (8,6 milljónir íslenskra króna) til munaðarleysingjahælis í bænum Ciudad Juarez.

Þeir söfnuðu meðal annars hluta þess penings meðal liðsfélaga sinna í Guadalajara-liðinu. Ciudad Juarez hefur einmitt orðið einna verst fyrir barðinu á eiturlyfjastríðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×