Enski boltinn

Vermaelen meiddist aftur og missir af leiknum gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vermaelen gengur af velli í gær.
Vermaelen gengur af velli í gær. Nordic Photos / Getty Images
Meiðsli eru enn og aftur að plaga Thomas Vermaelen, varnarmann Arsenal, og mun hann missa af leik sinna manna gegn Chelsea um helgina.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að nýjustu meiðsli Vermaelen séu ekki alvarleg en hann er nýbúinn að jafna sig á meiðslum sem héldu honum frá í tvo mánuði.

Vermaelen spilaði í 2-1 sigri sinna manna á Bolton í gær en þurfti að fara af velli á 84. mínútu vegna meiðslanna. Hann hefur verið að glíma við meiðsli bæði í hásin og ökkla og var óttast að hann hafi fengið bakslag í gær.

„Hann stóð sig mjög vel í leiknum. Hann þurfti að fara af velli vegna meiðsla í kálfa en ég vona að þetta sé ekki alvarlegt,“ sagði Wenger.

„Hann nær þó ekki leiknum á laugardaginn og veit ég ekki alveg hvað ég mun gera vegna þess. Hann var búinn að vera frá í langan tíma og náði bara einni æfingu fyrir þennan leik. Hann mun hvíla á morgun (í dag) og svo sjáum við til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×