Fótbolti

Platini: PSG vill Beckham á röngum forsendum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, segir að ef Paris Saint-Germain ætli sér að fá David Beckahm til félagsins verði það gert á röngum forsendum.

Plaitini gefur í skyn að PSG hafi í raun aðeins áhuga á að fá Beckham til að vekja athygli á félaginu og sé því í raun ekkert annað en auglýsingabrella.

„Beckham til Parísar - það yrði mikil búbót fyrir verslunarrekstur í París,“ sagði Platini við franska fjölmiðla en Beckham hefur verið mjög sterklega orðaður við PSG. Hann er nú á mála hjá LA Galaxy í Bandaríkjunum en samningur hans við félagið rennur út í næsta mánuði.

„Mér líkar mjög vel við hann sem leikmaður en hann er ekki lengur sá miðjumaður sem hann var áður,“ bætti Platini við. „Ef hann kemur til PSG verður það ekki bara til að láta hann spila fótbolta.“

Beckham hefur einnig verið orðaður við Tottenham og QPR í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×