Fótbolti

PSG ætlar að bjóða 50 milljónir evra í Hazard

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hazard í leik með Lille.
Hazard í leik með Lille. Nordic Photos / Getty Images
Hinir moldríku eigendur Paris Saint-Germain eru ekki hættir á leikmannamarkaðnum en nú er fullyrt að þeir ætli sér að bjóða 50 milljónir evra í Edin Hazard, miðjumanninn öfluga hjá Lille.

Hazard átti stóran þátt í velgengni Lille á síðasta tímabil en þá varð félagið Frakklandsmeistari. Hann hefur verið orðaður við stórlið á borð við Real Madrid, Inter og Chelsea að undanförnu.

Forráðamenn Lille vilja ekki selja kappann en talið er engu að síður líklegt að Hazard fari fyrr frekar en síðar.

PSG eyddi um 85 milljónum evra í leikmenn nú í sumar og keypti leikmenn á borð við Kevin Gameiro og Javier Pastore. David Beckham hefur einnig verið orðaður við félagið.

Hazard er samningsbundinn Lille til 2015 en óvíst er að félagið geti hafnað risatilboði PSG í janúar næstkomandi, verði það lagt fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×