Íslenski boltinn

Guðmundur Steinarsson áfram í Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Steinarsson í leik með Keflavík.
Guðmundur Steinarsson í leik með Keflavík. Mynd/Valli
Guðmundur Steinarsson hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Keflavík. Hann segir að hann hafi einnig skoða aðra möguleika.

Guðmundur var orðinn samningslaus en hann er uppalinn leikmaður Keflavíkur og spilað þar lengst af á ferlinum. Hann viðurkennir þó að hann hafi íhugað alvarlega að leita annað í þetta skiptið. Keflavík hafi þó orðið fyrir valinu á endanum.

„Þeir voru bara með langmestu peningana," sagði hann og hló. „Nei, nei. Það má segja að það hafi tvennt ráðið úrslitum. Bæði voru gæði samningsins góð og svo er alltaf erfitt að yfirgefa heimaklúbbinn."

„Eftir því sem dagarnir liðu - þó svo að þeir hafi ekki verið margir - fór maður sífellt að heyra í fleiri röddum í kringum mann sem settu smá pressu á mig. Ég náði svo góðu samkomulagi við stjórn knattspyrnudeildar og því varð þetta niðurstaðan."

Hann viðurkennir að hafa átt í viðræðum við Val en þjálfari liðsins er Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur. „Ég var að skoða nokkra möguleika sem voru mjög spennandi og það var smá barningur í mér þegar kom að því að velja og hafna. Svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort maður tók svo rétta ákvörðun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×