Fótbolti

Pele: Bara einn Pele

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Brasilíumaðurinn Pele hefur verið að fara á kostum í enskum fjölmiðlum að undanförnu og segir hann nú að það sé enginn leikmaður enn sem getur talist vera betri knattspyrnumaður en hann var sjálfur.

„Ég held að það sé svolítið erfitt að finna annan Pele því að mamma mín og pabbi hafa hætt framleiðslunni,“ sagði hann í léttum dúr.

„Það eru margir góðir leikmenn sem hafa spilað knattspyrnu. Kannski kemur einn til sögunnar sem mun spila fleiri leiki en Pele gerði og skora fleiri mörk en Pele gerði,“ sagði maðurinn sjálfur. „En það er þó líklega svolítið erfitt.“

Hann nefndi þó nokkra leikmenn sem hann telur þá bestu frá upphafi. „Beckenbauer, Georgie Best, Zico, Maradona - já, hann var góður leikmaður - og svo Platini og auðvitað Di Stefano.“

„Zidane var lengi besti knattspyrnumaður heimsins og svo getur líka verið erfitt að bera saman leikmenn, eins og Garrincha og Zico. Í dag er enginn vafi á því að Messi er besti leikmaður heims en kannski kemst Neymar á þann stall síðar.“

Pele sagði í gríni að Sylvester Stallone hafi verið erfiðasti andstæðingur hans en í viðtali á vefsíðu Soccernet að það hafi verið Bobby Moore. „Moore og Beckenbauer. Kannski Moore vegna þess að það var alltaf gríðarlega erfitt að spila gegn honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×