Fótbolti

Loksins sigur hjá Ajax

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank de Boer er stjóri Ajax.
Frank de Boer er stjóri Ajax. Nordic Photos / Getty Images
Ajax frá Amsterdam vann í dag sinn fyrsta sigur í síðustu sex deildarleikjum í hollensku úrvalsdeildinni er liðið mætti Roda JC á útivelli. Niðurstaðan 4-0 sigur gestanna.

Kolbeinn Sigþórsson er á mála hjá Ajax en er nú frá vegna meiðsla og verður áfram fram yfir áramót. Hann er ökklabrotinn en Kolbeinn hafði byrjað leiktíðina vel og skorað fimm mörk í fyrstu leikjum sínum með Ajax.

Síðasti sigurleikur Ajax í deildinni kom gegn Heracles þann 10. september síðastliðinn og hafði því biðin verið löng fyrir Frank de Boer og hans menn. Christian Eriksen, Theo Janssen, Jody Lukoki og Lorenzo Ebecilio skoruðu mörk Ajax í dag.

Með sigrinum komst Ajax upp í fjórða sæti deildarinnar og er þrátt fyrir allt aðeins fimm stigum á eftir toppliði AZ - sem á þó leik til góða á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×