Íslenski boltinn

Ágúst Gylfa tekur við af Ásmundi hjá Fjölni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. Mynd/Daníel
Fjölnismenn hafa þegar fundið eftirmann Ásmundar Arnarssonar en Ásmundur hefur ákveðið að yfirgefa Grafarvoginn og taka við Pepsi-deildar liði Fylkis.

Ágúst Þór Gylfason mun taka við Fjölnisliðinu af Ásmundi og stjórna liðinu í 1. deildinni næsta sumar en Ágúst hefur verið aðstoðarmaður Ásmundar undanfarin þrjú sumur. Þetta kemur fram á heimasíðu Fjölnis.

Ágúst, sem er fertugur síðan í águst, á að baki langan og farsælan knattspyrnuferil en hann lék á sínum tíma 195 leiki í efstu deild fyrir Val, Fram, KR og Fjölni.

Ágúst hefur verið í herbúðum Fjölnis frá árinu 2008 en hann kom þá til liðs við félagið frá KR. Ágúst lék með Fjölni sumarið 2008 og gerðist síðan aðstoðarmaður Ásmundar sumarið eftir.

„Ágúst er Fjölnismönnum að góðu kunnur enda hefur hann verið aðstoðarmaður Ásmundar undanfarin ár auk þess að koma að þjálfun Bjarnarins og 2 flokks karla. Undanfarin tvö tímabil hefur verið mikill uppbyggingarfasi hjá félaginu og margir ungir leikmenn fengið dýrmæta reynslu og á því verður byggt og framtíðarmarkið félagsins að sjálfsögð að komast aftur upp á meðal þeirra bestu og festa sig þar í sessi," segir í frétt á heimasíðu Fjölnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×