Enski boltinn

Martin Atkinson ekki settur í skammarkrókinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Atkinson rekur hér Jack Rodwell af velli.
Martin Atkinson rekur hér Jack Rodwell af velli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska dómaranum Martin Atkinson verður ekki refsað fyrir mistök sín í leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sem fram fór á Goodison Park á dögunum. Atkinson rak þá Everton-manninn Jack Rodwell af velli þrátt fyrir að varla hafi verið um brot að ræða.

Everton þurfti fyrir vikið að spila manni færra í 77 mínútur og Liverpool vann á endanum leikinn 2-0 með tveimur mörkum á lokakaflanum. Margir voru á því að þarna hafi Atkinson hreinlega eyðilagt 216. Merseyside-slaginn.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins dró rauða spjaldið seinna til baka og fer Jack Rodwell því ekki í bann en ensku 21 árs landsliðsmaðurinn var að vonum afar svekktur að þurfa yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið þetta óréttmæta rauða spjald.

Martin Atkinson mun þrátt fyrir þetta dæma leik í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi en hann dæmir þá leik Stoke og Fulham á Britannia Stadium.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×