Enski boltinn

Verða að eiga heima í 48 km radíus frá æfingasvæði félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Ireland var ekki svona svekktur að þurfa að flytja nær æfingasvæðinu hjá Aston Villa.
Stephen Ireland var ekki svona svekktur að þurfa að flytja nær æfingasvæðinu hjá Aston Villa. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aston Villa ætlar að sjá til þess í framtíðinni að leikmenn félagsins þurfi ekki að sitja langtímum saman í bíl þegar þeir skella sér á æfingar hjá liðinu. Birmingham Mail skrifar í dag um nýja framtíðarreglu enska úrvalsdeildarfélagsins.

Hér eftir verður það sett inn í alla samninga hjá leikmönnum félagsins að leikmenn Aston Villa verði að eiga heima í 48 kílómetra radíus frá æfingasvæði félagsins sem heitir Bodymoor Heath. Markmið félagsins er bæði að losa leikmenn við langar setur fyrir æfingar sem og að rækta upp meiri tengsl leikmanna við svæðið.

Stephen Ireland og Stephen Warnock eru tveir af leikmönnum liðsins sem féllust á það að leita sér að heimili nær Bodymoor Heath æfingasvæðinu en stjórinn Alex McLeish sannfærði þá báða um að þeir væru inn í framtíðarplönum hans.

Birmingham Mail heldur því auk þess fram að ein af ástæðunum fyrir því að Luke Young var seldur til Queens Park Rangers var að hann ferðaðist frá Wimbledon til Birmingham á æfingar sem er rúmlega tveggja tíma bíltúr aðra leið.

Það er einnig rifjað upp í greininni að Frakkinn Robert Pires hafi alltaf ferðast frá London í fyrra og að hann hafi verið með sér einkabílsstjóra til að koma sér á æfingar Aston Villa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×