Enski boltinn

Carlos Tevez ætlar að mæta á æfingu hjá City á fimmtudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez á æfingu með Manchester City.
Carlos Tevez á æfingu með Manchester City. Mynd/AFP
Carlos Tevez er að klára tveggja vikna verkbann sitt í vikunni og hann virðist bara ætla að taka upp þráðinn frá því fyrir Bayern-leikinn þar sem hann neitaði að fara inn á völlinn.

Tevez hefur verið á milli tannanna á fótboltaáhugamönnum síðustu tvær vikur og flestir hafa búist við því að hann hafi mætt á sína síðustu æfingu með Manchester City.

David Ornstein, blaðamaður á BBC, hefur það eftir mönnum tengdum Tevez að Argentínumaðurinn lendi í Manchester á hádegi á morgun og að Tevez ætli síðan að mæta á æfingu hjá Manchester-liðinu á fimmtudaginn.

Forráðamenn Manchester City hafa hinsvegar gefið það út að það fari algjörlega eftir niðurstöðu rannsóknar félagsins á því sem gerðist í München hvort að Tevez fái að mæta á umrædda æfingu.

Tevez hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og talað um að misskilningur milli hans og stjórans Roberto Mancini sé um að kenna hvernig fór á Allianz Arena 27. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×