Enski boltinn

Stórmeistarajafntefli á Anfield

Javier Hernandez bjargaði stigi fyrir Man. Utd gegn Liverpool á Anfield í dag. Lokatölur 1-1 í leik þar sem Liverpool var sterkari aðilinn lengstum og ekki fjarri því að taka öll stigin.

Uppstilling Man. Utd vakti talsverða athygli. Ferguson setti Rooney og Hernandez á bekkinn og Phil Jones var mættur á miðjuna. Hjá Liverpool var Steven Gerrard í byrjunarliði félagsins í fyrsta skipti í hálft ár.

Allar þessar breytingar hjá United gerðu það að verkum að liðið náði ekki neinum takti í sinn leik. Liverpool stýrði ferðinni en gekk illa að skapa færi. Eina alvöru færi fyrri hálfleiks fékk Luis Suarez en David de Gea varði vel.

Þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum dró loksins til tíðinda. Liverpool fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Aukaspyrnan afar ódýr enda virtist Rio Ferdinand ekki snerta Charlie Adam.

Gerrard tók aukaspyrnuna. Miðaði á Ryan Giggs í veggnum sem var góð ákvörðun enda færði Giggs sig frá boltanum sem söng í horninu. De Gea varnarlaus en Giggs fær eflaust að heyra það frá stjóranum og jafnvel fleirum. Svona sést bara ekki á hverjum degi.

Þá ákvað Ferguson loksins að sleppa Rooney og Nani inn á völlinn. Þeir höfðu 20 mínútur til þess að bjarga málunum fyrir meistarana sem höfðu ekki gert nokkurn skapaðan hlut í leiknum.

Skömmu síðar kom Hernandez af bekknum og eina ferðina enn kom hann United til bjargar. Litli Mexíkóinn stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu er tíu mínútur lifðu leiks. Slök dekkning hjá Skrtel og verkefnið auðvelt hjá Chicharito.

Aðeins mínútu síðar komst Dirk Kuyt í dauðafæri en De Gea varði frábærlega. Mikið fjör undir lokin eftir heldur leiðinlegan leik framan af.

Jordan Henderson var ekki fjarri því að skora sigurmarkið á 90. mínútu. Hann átti þá lúmskt skot utan teigs en aftur varði De Gea vel. Í kjölfarið myndaðist mikil pressa við mark United en gestirnir sluppu með skrekkinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×