Enski boltinn

Wenger: Hálfur leikmannahópurinn vildi fara í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er ekkert lengur að fela það sem gekk á innan herbúða félagsins í sumar. Sumarið endaði á því að tveir bestu leikmenn liðsins, Cecs Fabregas og Samir Nasri, voru seldir og tímabilið byrjaði síðan skelfilega.

Arsenal-liðið er hinsvegar að fóta sig á nýjan leik og vann mikilvægan sigur á Sunderland um síðustu helgi en þau þrjú stig skiluðu liðinu upp í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta var mjög erfitt sumar því hálfur leikmannahópurinn vildi fara. Við vorum að undirbúa okkur fyrir tímabil þar sem ekki var vitað hverjir væru að koma til félagsins og menn fóru að efast. Það sem bjargaði okkur var að við erum traustur og samheldinn klúbbur því mörg lið hefðu hrunið við slíkar aðstæður," sagði Arsene Wenger.

„Fólk gleymir því oft að við misstum þrjá lykilmenn en ekki tvo. Við misstum líka [Jack] Wilshere. Liðið hefur því verið án þriggja lykilmiðjumanna. Nasri, Fábregas og Wilshere voru kjarni miðju liðsins á síðustu leiktíð," sagði Wenger en Wilshere hefur ekkert verið með vegna meiðsla.

„Við erum vonsviknir með þessa byrjun á tímabilinu en við erum á uppleið. Við erum ekki of langt frá fjórða sætinu en við erum vissulega alltof langt frá toppinum," sagði Wenger.

Hann skaut líka á þá leikmenn Arsenal sem hafa samið við Manchester City og gefið það út að þeir færu þangað til að vinna titla.

„Þeir þurfa ekki að fara til City til að vinna titla. Ef þú berð saman hvaða titla Arsenal og Manchester City hafa verið að vinna þá ferð þú ekki til City til að vinna titla. Leikmenn fara til Manchester City af því að þar borga menn mun betur en hjá Arsenal. Það er skiljanlegt. Ef að leikmenn fengju þrisvar sinnum minna borgað hjá Barcelona eða Real Madrid en hjá Malaga þá myndu leikmennirnir fara til Malaga," sagði Wenger.

„Ef leikmaður er að velja á milli tveggja metnaðarfullra félaga og getur fengið þrisvar sinnum meira borgað hjá öðru félaginu þá fer hann þangað. Það er bara rökrétt," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×