Fótbolti

Romario: Messi er ekki enn orðinn betri en Maradona, Pele og ég

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romario var valinn besti leikmaður HM í Bandaríkjunum 1994.
Romario var valinn besti leikmaður HM í Bandaríkjunum 1994. Mynd/Nordic Photos/Getty
Romario, fyrrum stjarna brasilíska landsliðsins og heimsmeistari árið 1994, segir að Argentínumaðurinn Lionel Messi eigi enn nokkuð í land til þess að geta talist vera besti knattspyrnumaður sögunnar. Romario nefndi þrjá leikmenn sem halda Messi enn fyrir aftan sig.

„Messi hefur allt til alls til að geta orðið sá besti frá upphafi einn daginn en fyrst þarf hann að komast fram úr Maradona, Romario (honum sjálfum) og á endanum Pele," sagði Romario án þess að blikna.

Ummæli Messi á dögunum vöktu mikla athygli en þá sagði Argentínumaðurinn að hann gæti ekki dæmt um það hvort Pele hefði verið betri en hann því hann hafi ekki séð hann spila. Pele svaraði því með því að bjóðast til að senda Messi heimildarmynd með ferli sínum.

„Ef Messi horfir á myndina þá mun hann örugglega læra eitthvað nýtt. Það er samt bara ekki að nefna hann í sömu setningu og Pele á meðan að Messi hefur aldrei orðið heimsmeistari," sagði Romario.

Romario lék með Barcelona á árunum 1993 til 1995 og varð einu sinni spænskur meistari auk þess að tapa í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 1994. Romario skoraði 39 mörk í 66 leikjum með Barca.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×