Fótbolti

Capello vongóður um að Rooney komi með á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segist vongóður um að Wayne Rooney geti komið með enska landsliðinu á EM í Póllandi og Úkraínu í sumar þrátt fyrir þriggja leikja bannið sem hann var dæmdur í á dögunum.

Bannið fékk Rooney fyrir að sparka niður andstæðing í leik Englands og Svartfjallalands í undankeppni EM 2012 fyrr í mánuðinum. Það þýðir að hann mun missa af öllum leikjum Englands í riðlakeppninni og gæti í fyrsta lagi spilað með liðinu í fjórðungsúrslitum keppninnar - ef England kemst upp úr riðlinum án Rooney.

Capello var að ræða um leikmannahópinn sem hann ætlar að taka með sér og gaf þá ansi sterka vísbendingu um að hann ætli sér að velja Rooney í hópinn.

„Við þurfum á leiðtogum að halda í þessum leikjum. Jack Wilshere er ótrúlegur vegna þess að hann er svo ungur en við þurfum líka reynda leikmenn eins og John Terry, Rio Ferdinand og Scott Parker - sem og vonandi Wayne Rooney.“

Hann segir að England eigi marga af bestu ungu leikmönnum heimsins í dag. „Það eru margir ungir leikmenn í heiminum betri en þeir ungu leikmenn sem við eigum. En það þarf samt að bíða til loka tímabilsins til að ákveða hvort þeir séu upp á sitt besta og hvort þeir eru tilbúnir að spila með þeim allra bestu.“

Enska knattspyrnusambandið mun vera nú að íhuga hvort það eigi að áfrýja þriggja leikja banni Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×