Enski boltinn

De Gea í vandræðum út af kleinuhring

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David de Gea hefur komist í fréttirnar í Englandi síðustu daga vegna ásakana um að hann hafi gerst uppvís að búðarhnupli í Tesco-verslun. Hann mun hafa stolið kleinuhring.

De Gea var staddur ásamt nokkrum vinum í búðinni og ákvað hann að fá sér eitthvað að borða þar sem hann væri svangur. Hann náði sér í kleinuhring en áttaði sig svo á því að hann hafi gleymt veskinu sínu út í bíl.

„Það gerðist ekkert stórvægilegt. Við ætluðum að kaupa fleiri hluti en þegar ég áttaði mig á því að ég væri ekki með veskið mitt fór ég út í bíl til að ná í það. Það er allt og sumt,“ sagði De Gea en hann yfirgaf búðina með kleinuhringinn án þess að borga fyrir hann.

„Ég reyndi að útskýra fyrir þeim hvað málið var en enskukunnáta mín er ekki mjög góð og því vorum við þarna í dágóða stund. Svo kom spænsk stúlka sem gat aðstoðað okkur og á endanum vorum við beðin afsökunar á þessu öllu saman,“ sagði De Gea.

„Það var mikið gert úr þessu öllu saman en mér fannst þetta bara nokkuð fyndið.“

De Gea var settur á bekkinn fyrir leik liðsins gegn Norwich um helgina en De Gea segir að það tengist kleinuhringjamálinu ekki neitt. „Alls ekki. Það var grínast með þetta innan félagsins en ég var ekki settur út úr liðinu vegna kleinuhrings. Stjórinn ákveður hverjir spila og ákvað að hvíla mig í þetta skiptið.“

„Sumir strákanna komu svo með nokkra kleinuhringi til mín og gáfu mér. Mér fannst þetta bara fyndið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×