Fótbolti

Tevez á innkaupalistanum hjá Anzhi í Rússlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez.
Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Forráðamenn rússneska liðsins Anzhi Makhachkala ætla sér að reyna að kaupa vandræðabarnið Carlos Tevez frá Manchester City og vilja tefla Argentínumanninum fram við hlið  Samuel Eto'o sem félagið keypti frá Inter Milan í ágúst.

Tvoi Den-dagblaðið í Rússlandi segir að Anzhi-menn sjái sér leik á borði þar sem að Tevez muni líklega ekki spila aftur fyrir Roberto Mancini hjá City eftir að Tevez neitaði að koma inn á í Meistaradeildarleik á móti Bayern Munchen.

„Það eru góðar aðstæður til að kaupa Tevez," hafði blaðamaður Tvoi Den eftir heimildarmanni hjá rússneska félaginu sem kemur frá Makhachkala, 460 þúsund manna borg við Kaspíahafið.

Anzhi keypti Samuel Eto'o frá Inter fyrir 21 milljón evra á dögunum og hefur einnig samið við Brasilíumanninn Roberto Carlos og rússneska landsliðsmanninn Yuri Zhirkov sem lék áður með Chelsea. Eigandinn er tilbúinn að dæla peningum í félagið og Tevez þarf örugglega ekki að kvarta mikið yfir launum sínum þar.

Það hefur lítið gengið hjá Anzhi í rússnesku deildinni þar sem liðið er aðeins í áttunda sæti. Anzhi er aðeins búið að skora 29 mörk í 26 leikjum og því vonast menn eftir því að Tevez geti hresst vel upp á sóknarleik liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×