Íslenski boltinn

Ekki öruggt að Ólafur Örn spili áfram með Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason
Ólafur Örn Bjarnason Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Þrátt fyrir fullyrðingu þess efnis að Ólafur Örn Bjarnason muni spila áfram með Grindavík á næsta tímabili segir Ólafur sjálfur að það sé ekki víst.

Þorsteinn Gunnarson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, staðfesti við fréttadeild í morgun að Ólafur muni stíga til hliðar sem þjálfari en spila áfram með liðinu. Ólafur mun vissulega hætta sem þjálfari en hvort hann muni spila með liðinu á enn eftir að koma í ljós.

„Það er ekki búið að skrifa undir eitt eða neitt á þessari stundu," sagði Ólafur Örn í samtali við Vísi í dag. „Í augnablikinu er ég að leita mér að liði eins og allir samningslausir leikmenn."

„Grindavík er eina liðið sem ég hef talað við og á borðinu liggja samningsdrög en það er ekki búið að skrifa undir neitt. Leikmenn þurfa að hugsa um sína framtíð og ég vil helst fá að vita hver muni þjálfa liðið áður en ég ákveð mig. Ég mun ekki skrifa blint undir hvað sem er."

Hann segir að það geti líka verið óþægilegt fyrir sig og nýjan þjálfara að halda áfram að spila með liði sem hann hefur þjálfað síðan í júní í fyrra. „Það getur verið mjög óþægilegt, bæði fyrir mig og nýjan þjálfara, að fara aftur inn í klefann sem leikmaður," sagði Ólafur sem tilkynnti stjórn félagsins fyrr í sumar að hann gæti ekki áfram sinnt báðum störfum.

„Ég lét vita af þessu fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Ég var orðinn þreyttur á bæði líkama og sál og mér fannst ég ekki ná því besta úr mér, hvorki sem leikmaður eða þjálfari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×