Enski boltinn

Eigendur Blackburn segja Kean frábæran knattspyrnustjóra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve Kean, stjóri Blackburn, er í miklum metum hjá eigendum félagsins.
Steve Kean, stjóri Blackburn, er í miklum metum hjá eigendum félagsins. Nordic Photos / Getty Images
Eigendur Venky's, fyrirtækisins sem á enska úrvalsdeildarfélagið Blackburn, segja að Steve Kean sé frábær knattspyrnustjóri. Kean er óvinsæll hjá mörgum stuðningsmönnum Blackburn sem vilja hann burt.

Venky's er risastór kjúklingaframleiðandi á Indlandi en fyrirtækið keypti Blackburn á miðju síðasta keppnistímabilið. Liðið átti í harðri fallbaráttu undir lok síðasta tímabils og var Sam Allardyce rekinn úr starfi knattspyrnustjóra. Steve Kean, þjálfari varaliðsins, tók við og tókst að bjarga liðinu frá falli í lokaumferðinni.

„Liðið er á fallsvæði eins og er en ég er handviss um að það muni komast aftur á réttan kjöl,“ sagði Balaji Rao, einn eiganda Venky's. „Það eru örfáir aðilar sem hafa verið að senda okkur þúsundir tölvupósta þar sem þess er krafist að Kean verði rekinn en hann er frábær knattspyrnustjóri.“

„Við vitum að liðið er á réttri braut og erum mjög ánægðir með frammistöðu leikmanna. Okkar markmið er að komast í Evrópukeppni á næstu 4-5 árum og teljum við að það sé raunhæft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×