Enski boltinn

Arsenal-maðurinn heldur áfram að skora fyrir Suður-Kóreu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Park Chu-young.
Park Chu-young. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal-maðurinn Park Chu-young skoraði bæði mörk Suður-Kóreu í 2-2 jafntefli á móti Póllandi í vináttulandsleik í Seoul í Suður-Kóreu í dag. Park hefur þar með skorað sex mörk í síðustu þremur landsleikjum sínum og alls 23 mörk í 56 landsleikjum fyrir Suður-Kóreu.

Robert Lewandowski hjá Borussia Dortmund kom Póllandi í 1-0 á 32. mínútu en Park jafnaði leikinn um miðjan seinni hálfleik þegar hann skoraði framhjá liðsfélaga sínum hjá Arsenal, Lukasz Fabianski. Park kom síðan Suður-Kóreu yfir fjórtán mínútum fyrir leikslok áður en Jakub Blaszczykowski, miðjumaður Dortmund, jafnaði leikinn í blálokin eftir varnarmistök.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, fékk Park Chu-young frá franska liðinu Mónakó í ágúst en hann hefur aðeins fengið að spreyta sig í einum deildarbikarleik á þessu tímabili. Park spilaði fyrstu 70 mínúturnar í 3-1 sigri á Shrewsbury Town.

Park er 26 ára gamall og 183 sentímetra framherji sem fékk treyju númer níu þegar hann kom til Arsenal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×