Enski boltinn

Redknapp: Heimskuleg hegðun Rooney gæti reynst okkur dýrkeypt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney sparkar hér í Miodrag Dzudovic í leiknum í gær.
Wayne Rooney sparkar hér í Miodrag Dzudovic í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að rauða spjaldið sem Wayne Rooney fékk í leik Svartfjallalands og Englands í gær gæti reynst enska landsliðinu dýrkeypt í úrslitakeppni EM í sumar.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en stigið dugði Englendingum til að tryggja sér sigur í riðlinum og þar með sæti í úrslitakeppninni í Pólland og Úkraínu næsta sumar.

Rooney mun þó missa af minnst einum leik Englands í riðlakeppninni vegna rauða spjaldsins í gær. Og Redknapp, sem hefur helst verið orðaður við landsliðsþjálfara stöðu Englands eftir að Fabio Capello hættir næsta sumar, segir að það gæti reynst liðinu dýrkeypt.

„Það sem Rooney gerði var einfaldlega heimskulegt,“ skrifaði Redknapp í vikulegan pistil sinn í enska götublaðinu The Sun. „Hann einfaldlega má ekki láta svona lagað koma fyrir. Við héldum öll að þessir dagar væru liðnir en hann greinilega hefur ekki stjórn á skapinu. Hann leggur sig mikið fram í leikjum Manchester United og enska landsliðsins en hann verður að hafa sín mörk.“

Aðeins degi fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi bárust fregnir af því að faðir Rooney hafði verið handtekinn fyrir sinn þátt í veðmálabraski sem tengdist leik í skosku úrvalsdeildinni.

Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, sagði eftir leikinn í gær að það hafi engu að síður verið rétt ákvörðun að láta hann spila, þrátt fyrir rauða spjaldið.

„Það voru ekki mistök að velja hann í liðð. Hann gerði kjánaleg mistök þegar hann sparkaði í andstæðing og ég held að hann verði í banni í fyrsta leiknum okkar á EM. Ég ræddi við hann fyrir leikinn og var hann bæði yfirvegaður og rólegur. Svo fór hann út á völlinn og gerði þessu kjánalegu mistök.“

„Wayne var ekki ánægður vegna þess að náði ekki stjórn á boltanum og nokkrum sendingum. Viðbrögðin hans við því voru að sparka í andstæðinginn. Ég er ekki ánægður og er búinn að ræða við hann. Hann baðst afsökunar.“

Redknapp skrifaði að lengi vel hafi það litið út fyrir að vera rétt ákvörðun að láta Rooney spila. „Ég var einmitt að hugsa að þetta mál með pabba hans og frænda hafði greinilega engin áhrif á hann. En það er ljóst að eftirmálarnir, líklega tveggja leikja bann á EM, er gríðarlegt áfall fyrir enska landsliðið.“

„Rooney átti stóran þátt í báðum mörkum enska landsliðsins í gær og við verðum bara að vona að bannið sem hann fær verði ekki of langt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×