Enski boltinn

Capello ber enn traust til Rooney

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segist enn bera traust til Wayne Rooney sem fékk að líta rauða spjaldið í leik liðsins gegn Svartfjallalandi á föstudagskvöldið.

Rooney verður í banni í fyrsta leik Englands á EM í Póllandi og Úkraínu næsta  sumar. Hann gæti meira að segja misst af fyrstu tveimur leikjunum ef hann verður dæmdur í tveggja leikja bann af Knattspyrnusambandi Evrópu.

Capello var spurður í gær hvort hann bæri enn traust til Rooney. „Já, það er ekki spurning. Af hverju ekki? Hann er virkilega góður leikmaður og afar mikilvægur okkar liði. Þegar hann er upp á sitt besta skiptir hann sköpum fyrir okkur.“

„Hann hefur verið besti maður enska landsliðsins í langan tíma og ég er viss um að hann verði okkur mikilvægur á EM í sumar.“

Dómarinn sem rak hann af velli, Þjóðverjinn Wolfgang Stark, telur að viðbrögð Rooney við rauða spjaldinu muni mögulega milda afstöðu forráðamanna UEFA í hans garð.

„Hann gekkst við spjaldinu án þess að sýna mér neina vanvirðingu. Kannski mun það hjálpa honum í þessu máli,“ sagði Stark. „En þetta var beint rautt spjald og hikaði ég ekki við að kveða upp þann dóm. Rooney vissi upp á sig sökina og labbaði út af. En ég hef ekkert meira um málið að segja. Ég mun skila inn minni skýrslu og annað er undir UEFA komið.“

John Terry, fyrirliði enska landsliðsins, vill að enskir fjölmiðlar sýni Rooney miskunn. „Þetta er bara eitthvað sem gerðist. Við værum líklega ekki komnir inn á EM nema af því að Rooney er í okkar liði.“

„Það er miður að hann muni missa af einum eða tveimur leikjum á EM. Vonandi verður ekki ráðist á hann í fjölmiðlum því hann hefur verið frábær að undanförnu. Hann er afar mikilvægur leikmaður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×