Enski boltinn

Paul Scholes skilur hvað Carlos Tevez var að hugsa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes og Carlos Tevez.
Paul Scholes og Carlos Tevez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United og fyrrum liðsfélagi Carlos Tevez, segist skilja það af hverju Carlos Tevez neitaði að fara inn á völlinn á móti Bayern Munchen á þriðjudaginn. Scholes neitaði á sínum tíma að spila fyrir Sir Alex Ferguson í deildarbikarleik árið 2001.

„Ég þekki Carlos nokkuð vel. Hann er leikmaður sem vill spila og það fer mjög illa með hann að vera varamaður," sagði Paul Scholes í viðtalið við útvarp BBC.

„Það stjórinn sem ræður þessu en Carlos var örugglega ekki að pæla í því. Hann var að hugsa um það að stjórinn væri á móti sér og af hverju hann væri ekki að skipta sér inn á. Hann var að hugsa: Ég er besti leikmaður City og hann er ekki að nota mig," sagði Paul Scholes.

„Ég er samt ekki að segja að Tevez hafi haft rétt fyrir sér því það er að sjálfsögðu stjórinn sem ræður þessu," sagði Scholes.

Scholes neitaði að spila fyrir Sir Alex Ferguson í deildarbikarleik á móti Arsenal í nóvember 2001 þegar Skotinn tefldi fram hálfgerðu varaliði en degi áður hafði Ferguson ekki notað Scholes í tapleik á móti Liverpool í ensku deildinni.

„Ég taldi að ég hefði átt að spila daginn áður og hausinn minn var út um allt. Ég hélt að hann [Sir Alex Ferguson] væri að rugla í mér. Það var tóm vitleysa í mér og það er stjórinn sem ræður hvað hann gerir með sitt lið," rifjar Scholes upp.

„Ég átta mig á því að ég var vitlaus og ég sá eftir þessu. Ég er samt viss um að Carlos Tevez hefur verið að hugsa svipað," sagði Scholes en hann baðst strax afsökunar og var síðan sektaður um vikulaun.

„Stjórinn var í fullum rétti til að reka mig eða gera það sem hann vildi með mig. Hann gaf mér fulla sekt og þá var það mál búið. Ég held að ég hafi spilað næsta leik," sagði Scholes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×