Enski boltinn

Roberto Mancini vill skipta Tevez út fyrir Van Persie

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin Van Persie.
Robin Van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Guardian segir frá því í morgun að Roberto Mancini, stjóri Manchester City, sér þegar búinn að finna sér eftirmann Carlos Tevez hjá félaginu. Mancini ætlar sér nefnilega að kaupa Robin Van Persie frá Arsenal í janúar.

Roberto Mancini vill því halda áfram að sækja leikmenn í sama brunninn því Emmanuel Adebayor, Kolo Touré, Gaël Clichy og Samir Nasri hafa allir verið keyptir til félagsins frá Arsenal á síðustu misserum.

Robin van Persie er fyrirliði Arsenal en hann á bara tvö ár eftir af samningi sínum og hefur hollenski landsliðsmaðurinn ekki viljað skrifað undir nýjan samning.

Van Persie er 28 ára gamall og hefur verið hjá Arsenal frá árinu 2004. Van Persie hefur skorað 69 mörk og gefið 36 stoðsendingar í 162 leikjum með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni þar af er hann með 21 mark í 31 leik á tímabilinu í fyrra og það sem af er þessu tímabili.

Van Persie skoraði sitt hundraðasta mark fyrir Arsenal í öllum keppnum um síðustu helgi en hann kom til liðsins frá Feyenoord í maí 2004 og átti þá að verða eftirmaður landa síns Dennis Bergkamp.

Tevez er í tveggja vikna verkbanni og má hvorki æfa né spila með félaginu á þeim tíma. Mancini boðaði leikmenn Manchester City á fund fyrir æfinguna í gær, þá fyrstu eftir Bayern-leikinn, og fór þar yfir málin. Mancini sagðist þá ekki myndi sætta sig við fleiri agavandamál innan City-liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×