Enski boltinn

Heiðar kom inn á og lagði upp jöfnunarmark QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Heiðar Helguson spilaði sinn fyrsta leik eftir meiðsli þegar hann kom inn á sem varamaður í 1-1 jafntefli Queens Park Rangers á móti Aston Villa á Loftus Road í ensku úrvalsdeildinni í dag. Heiðar átti mikinn þátt í jöfnunarmark QPR sem var sjálfsmark eftir fyrirgjöf íslenska framherjans.

Skotinn Barry Bannan kom Aston Villa yfir úr vítaspyrnu á 58. mínútu en vítið var dæmt fyrir brot Armand Traoré á Gabriel Agbonlahor. QPR-liðið endaði leikinn manni færri eftir að Armand Traore fékk sitt annað gula spjald á 90. mínútu en tókst engu að síður að tryggja sér stig.

Heiðar kom inn á sem varamaður fyrir miðjumanninn Shaun Derry á 79. mínútu en Neil Warnock hafði áður skipt framherjanum Jay Bothroyd út fyrir DJ Campbell.

Heiðar lagði upp jöfnunnarmarkið á 93. mínútu þegar hann braust upp að endamörkum og ga boltann fyrir markið þar sem boltinn fór af varnarmanni, í Richard Dunne og þaðan í markið.

Aston Villa gat komist upp í fimmta sæti deildarinnar með sigri en lærisveinar Alex McLeish, sem hafa enn ekki tapað deildarleik á tímabilinu, eru núna búnir að gera jafntefli í fjórum síðustu leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×