Enski boltinn

Huddlestone aftur á skurðarborðið í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Huddlestone í baráttu við Eggert Gunnþór Jónsson í leik Tottenham á móti Hearts á dögunum.
Tom Huddlestone í baráttu við Eggert Gunnþór Jónsson í leik Tottenham á móti Hearts á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tom Huddlestone, miðjumaður Tottenham, verður ekkert með liðinu á næstunni þar sem hann þurfti að fara í aðgerð á ökkla í dag. Harry Redknapp, stjóri Tottenham, staðfesti þetta í morgun.

Tom Huddlestone er 24 ára gamall og hefur spilað fjóra leiki með Tottenham á tímabilinu. Hann kom síðast við sögu þegar hann kom inn á sem varamaður í 1-5 tapinu á móti Manchester City 28. ágúst síðastliðinn.

„Hann þarf að fara í aðra aðgerð. Hann er þegar búinn að fara í eina aðgerð en hann losnaði ekki við vandamálið. Þetta er áfall því hann verður frá í dágóðan tíma," sagði Harry Redknapp.

Huddlestone hefur verið í stóru hlutverki hjá Tottenham síðan að hann kom þangað frá Derby County í júlí 2005. Hann getur spilað á miðjunni og í miðri vörninni og var fyrirliði Tottenham-liðsins í nokkrum leikjum á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×