Enski boltinn

Tevez vikið frá störfum í tvær vikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í búningi Manchester City.
Carlos Tevez í búningi Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City birti í kvöld yfirlýsingu á heimasíðu sinni þess efnis að félagið hefði vikið Carlos Tevez frá störfum í mest tvær vikur á meðan að rannsókn á atburðum gærkvöldsins fer fram.

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri City, greindi frá því eftir 2-0 tapleik liðsins gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í gær að Tevez hefði neitað því að koma inn á sem varamaður í leiknum.

Sjálfur gaf Tevez frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem hann hafnar því og segir að um misskilning hafi verið að ræða.

Fram kemur í yfirlýsingu City að málið verði tekið til rannsóknar og á meðan svo er mun Tevez ekki taka þátt í æfingum eða leikjum á vegum félagsins. Bannið verður þó aldrei lengra en tvær vikur.

Tevez hefur lengi verið óhamingjusamur í Manchester og vill losna frá félaginu. Ekki tókst að selja hann í sumar og hefur hann látið lítið fyrir sér fara í leikjum City til þessa á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×