Enski boltinn

Holden frá í sex mánuði til viðbótar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bolton varð fyrir miklu áfalli í gær þegar í ljós kom að bandaríski miðjumaðurinn Stuart Holden verður frá næstu sex mánuðina. Hann er nýkominn aftur af stað eftir að hafa slitið krossband í mars síðstliðnum.

Holden spilaði með Bolton í 2-0 sigri á Aston Villa í enska deildabikarnum í síðustu viku en lagðist í gær aftur undir hnífinn. Var um reglubundna eftirfylgni að ræða eftir upphaflegu aðgerðina og var í fyrstu talið að hann yrði frá í sex vikur vegna þessa.

En aðgerðin leiddi í ljós skemmdir í brjóski sem verður til þess að hann verður frá næsta hálfa árið. Þetta eru skelfileg tíðindi fyrir Bolton sem er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins þrjú stig eftir sex umferðir. Holden sagði á Twitter-síðu sinni í gær að hann væri niðurbrotinn og eyðilagður maður - hann ætlaði þó sér að koma tvíefldur til baka.

„Þetta er mikið áfall fyrir Stuart sem hafði lagt svo mikið á sig í endurhæfingunni eftir krossbandsslitin,“ sagði Owen Coyle, stjóri Bolton. „En það er heilsufar hans sem mestu máli skiptir og verður núna allt kapp lagt á að ná honum góðum á ný.“

Þá var greint frá meiðslum fleiri leikmanna í ensku úrvalsdeildinni í gær. James Vaughan, framherji Norwich, verður frá í fjóra mánuði vegna meiðsla sem hann varð í leik liðsins gegn Sunderland á mánudaginn og þá þarf Tom Huddlestone, leikmaður Tottenham, að fara í aðgerð á ökkla í annað skipti á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×