Enski boltinn

Henderson: Fullt af hæfileikaríkum leikmönnum í enska 21 árs liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson er fyrirliði enska 21 árs landsliðsins.
Jordan Henderson er fyrirliði enska 21 árs landsliðsins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool-maðurinn Jordan Henderson verður í aðalhlutverki með enska 21 árs landsliðinu sem er á leiðinni til Íslands og mætir íslensku strákunum á Laugardalsvellinum fimmtudaginn 6. október næstkomandi.

Henderson segir að hann sé einn af þeim sem vonist eftir því að fá að spila með breska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London næsta sumar en það má búast við því að stór hluti þess liðs sé skipað leikmönnum sem mæta á Laugardalsvöllinn í næstu viku.

„Við eigum fullt af góðum ungum enskum leikmönnum í dag. Þegar við í 21 árs landsliðinu spiluðum á dögunum voru mörg ný andlit í hópnum og þar voru margir hæfileikaríkir leikmenn," sagði Jordan Henderson en hann hefur fengið mikið að spila hjá Liverpool það sem af er þessu tímabili.

Henderson var fyrirliði og meðal markaskorara enska 21 árs liðsins þegar það vann 6-0 sigur á Aserbaídsjan í fyrsta leik sínum í undankeppni EM. Craig Dawson (West Bromwich Albion) og Henri Lansbury (West Ham United - á láni frá Arsenal) skoruðu þá báðir tvö mörk og sjötta markið gerði Martyn Waghorn (Hull City - á láni frá Leicester City).

Manchester United mennirnir Phil Jones og Danny Welbeck eru báðir í hópnum hans Stuart Pearce sem og Martin Kelly hjá Liverpool, Alex Oxlade-Chamberlain hjá Arsenal, Josh McEachran hjá Chelsea og Jack Rodwell hjá Everton.

Þeir Danny Welbeck og Alex Oxlade-Chamberlain opnuðu báðir markareikning sinn í Meistaradeildinni í þessari viku, Welbeck skoraði tvö mörk í jafntefli Manchester United á móti Basel og Oxlade-Chamberlain skoraði fyrra markið í 2-1 sigri Arsenal á Olympiakos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×