Fótbolti

Ekkert frí á miðvikudögum hjá Eggerti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson í leik á móti Tottenham á dögunum.
Eggert Gunnþór Jónsson í leik á móti Tottenham á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paulo Sergio, nýr stjóri Eggert Gunnþórs Jónssonar og félaga í Hearts, er þegar byrjaður að breyta hlutunum hjá félaginu. Portúgalinn ætlar nú að afnema frídag leikmanna í miðri viku því honum finnst skoskir leikmenn ekki leggja nógu mikið á sig.

Hearts spilaði á sunnudögum í ágústmánuði en Paulo Sergio gaf leikmönnum liðsins engin frí. Hearts er í fjórða sæti skosku úrvalsdeildarinnar með átta stig út úr fyrstu sex leikjunum.

„Ég gaf þeim sinn fyrsta frídag um síðustu helgi. Það voru svo margir leikir hjá okkur í deildinni og í Evrópudeildinni að það var enginn tími fyrir frí," sagði Paulo Sergio en Eggert Gunnþór var upptekin með íslenska landsliðinu um síðustu helgi.

„Ég veit það vel að í Skotlandi eru menn vanir því að taka sér frí á miðvikudögum en ég stoppaði það. Ég trúi því að miðvikudagarnir eru kannski besti dagur vikunnar til þess að taka á því," sagði Paulo Sergio.

„Vikan er stutt og hvernig getur þú bætt þig sem leikmann ef þú vinnur ekki í þínum málum. Við æfum líka á háu tempói því við spilum ekki leikina í einhverhjum hægagangi," sagði Sergio sem ætlar greinilega að hrista upp í hlutunum hjá Heart of Midlothian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×