Enski boltinn

Scholes: Landsliðsmenn ofdekraðir og landsliðsþjálfarar peningagráðugir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Scholes í leik með Manchester United.
Paul Scholes í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Paul Scholes er í opinskáu viðtali við stuðningsmannarit Manchester United, Red Zone, þar sem hann gagnrýnir enska landsliðið harkalega, bæði leikmenn og þjálfara.

Scholes lék samtals 66 leiki með enska landsliðinu en hætti að gefa kost á sér árið 2004. Hann lagði skóna á hilluna í lok síðasta tímabils eftir glæsilegan feril með Manchester United.

„Farið er með leikmenn enska landsliðsins eins og stórstjörnur vegna þess að þeir hafa náð árangri með félagsliðum sínum,“ sagði Scholes en England varð síðast heimsmeistari árið 1966.

„Það kemur ekki landsliðinu til góðs því leikmennirnir eru einfaldlega ofdekraðir. Það er komið fram við þá eins og heimsmeistara án þess að þeir hafi unnið neitt,“ bætti hann við.

„Þess fyrir utan er skipt svo oft um landsliðsþjálfara að liðið nær aldrei neinum stöðugleika. Ég held að þjálfarar hafi aðeins áhuga á að gerast þjálfari enska landsliðsins vegna þess að starfið er vel borgað.“

„Eins og er get ég ekki séð fyrir mér að England vinni stórmót á næstu árum. Á síðustu árum höfum við af og til komist í fjórðungsúrslit en það er allt og sumt. Gengi liðsins í Suður-Afríku var svo algjörlega til skammar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×