Fótbolti

Ronaldinho inn í framtíðarplönum brasilíska landsliðþjálfarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho varð heimsmeistari með Brasilíu árið 2002.
Ronaldinho varð heimsmeistari með Brasilíu árið 2002. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mano Menezes, landliðsþjálfari Brasilíu, er nú tilbúinn að veðja á Ronaldinho fyrir HM í Brasilíu árið 2014 en þjálfarinn kallaði nýverið á hinn 31 árs gamla Ronaldinho aftur inn í landsliðshópinn sinn.

Ronaldinho datt út úr landsliðinu eftir misgóða frammistöðu sína síðustu árin sín í Evrópu en hann hefur gengist undir endurnýjun lífdaga með Flamengo í brasilísku deildinni þar sem kappinn hefur skorað 15 mörk á leiktíðinni.

Ronaldinho komst ekki í HM-hópinn í Suður-Afríku síðasta sumar og hefur síðan aðeins spilað einn landsleik sem kom í 0-1 tapi á móti Argentínu. Hann er hinsvegar í landsliðshóp Mano Menezes fyrir vináttuleik á móti Ghana á Craven Cottage í London í kvöld.

„Ronaldinho hefur orðið heimsmeistari með Brasilíu og eftir að hann kom heim hefur hann spilað mjög vel. Hann er einn af bestu leikmönnum brasilísku deildarinnar og það sem nýtist svona vel fyrir Flamengo getur einnig hjálpað brasilíska landsliðinu," sagði Mano Menezes.

„Þetta er ekki tímabundin ákvörðun. Það er mikilvægt fyrir Brasilíumenn að hafa einhvern eins og Ronaldinho í landsliðinu, leikmann sem alla þessa reynslu og leikmann með frábæru sögu með brasilíska landsliðinu," sagði Menezes en Ronaldinho varð heimsmeistari með Brasilíu árið 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×