Enski boltinn

Stjórnarformaður Man City í slæmum málum

Garry Cook, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, virðist hafa komið sér í veruleg vandræði sem gætu kostað hann starfið
Garry Cook, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, virðist hafa komið sér í veruleg vandræði sem gætu kostað hann starfið Getty Images / Nordic Photos
Garry Cook, stjórnarformaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, virðist hafa komið sér í veruleg vandræði sem gætu kostað hann starfið. Cook er grunaður um að hafa sent mjög óviðeigandi tölvupóst á móður varnarmannsins Nedum Onuoha en hún glímir við krabbamein.

Khaldoon Al Mubarak, forseti Man City, hefur krafist skýringa á hegðun Cook en tölvupósturinn var sendur í október á síðasta ári en á þeim tíma var Anthonia Onuoha starfandi sem umboðsmaður sonar síns. Cook er með um 340 milljónir kr. í árslaun hjá félaginu og þarf hann nú að útskýra málið fyrir vinnuveitendum sínum sem eru allt annað en ánægðir.

Anthonia Onuoha segir í viðtali við breska dagblaðið The Sun að Cook hafi gert grín að sjúkdómi hennar í tölvupóstinum og hún hafi aldrei upplifað slíkt áður. Cook segir að einhverjir aðilar hafi brotist inn í tölvupóstkerfi hans og skrifað þetta bréf án hans vitundar.

Onuoha lék ekkert með Man City á síðustu leiktíð þar sem hann var lánaður til Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×