Enski boltinn

Arsene Wenger: Núna byrjar tímabilið hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, vonast eftir því að fyrsti sigur liðsins í úrvalsdeildinni komi í hús á móti Swansea City á morgun. Arsenal hefur aðeins fengið eitt stig út úr fyrstu þremur leikjum sínum og tapað 2-8 á móti Manchester United í síðasta leiknum fyrir landsleikjahléið.

„Við vorum mjög vonsviknir eftir tapið á móti Unired og allt liðið var afar langt niðri eftir leikinn. Það verður samt að setja þennan leik í samhengi því við vorum mjög veikir fyrir í þessum leik," sagði Arsene Wenger.

„Við spiluðum mjög krefjandi leik á miðvikudeginum á undan á móti Udinese í Meistaradeildinni og svo fengum við á okkur fjögur mörk á síðustu tuttugu mínútunum þegar við vorum búnir að missa mann útaf," útskýrir Wenger.

„Þetta var erfitt tap en kannski kom landsleikjahléið á góðum tíma. Við gáum þá keypt nokkra leikmenn og endurheimt aðra úr meiðslum. Núna byrjar tímabilið hjá Arsenal því við erum loksins komnir með fullan hóp," sagði Wenger.

Wenger keypti varnarmennina Andre Santos og Per Mertesacker, miðjumennina Yossi Benayoun og Mikel Arteta og sóknarmanninn Park Chu-young áður en glugginn lokaði. Einhverjir þeirra fá væntanlega að spreyta sig á móti Swansea á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×