Enski boltinn

Carragher ánægður með breiddina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool, er ánægður með að liðið skuli vera komið með eins mikla breidd í leikmmannahópinn og sýndi sig í leiknum gegn Arsenal um helgina.

Þá komu þeir Luis Suarez og Raul Meireles inn af bekknum þegar staðan var 0-0 og áttu mikinn þátt í því að Liverpool vann að lokum 2-0 sigur.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, hefur eytt 100 milljónum punda í leikmenn í sumar og skilaði það að minnsta kosti fyrsta sigri liðsins á Arsenal á útivelli í ellefu ár.

„Stuðningsmenn og fjölmiðlamenn hafa verið duglegir að kvarta undan varamannabekk Liverpool," sagði Carragher í viðtali á heimasíðu félagsins.

„En það reyndist ótrúlega dýrmætt að fá svona hæfileikaríka leikmenn inn á völlinn þegar þeir komu inn á. Okkur tókst að gera út um leikinn eftir það."

Misjafnar skoðanir hafa verið á þeim leikmönnum sem voru keyptir í sumar en Carragher vill gefa þeim meiri tíma. „Rétti tíminn til að dæma þeirra frammistöðu er í lok tímabilsins. En mér fannst þeir standa sig mjög vel í sigrinum. Jordan Henderson var frábær á miðjunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×