Enski boltinn

Manchester United áfram á sigurbraut eftir 3-0 sigur á Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United hélt sigurgöngu sinni áfram þegar liðið vann 3-0 sigur á Tottenham á Old Trafford í lokaleik 2. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. United er með fullt hús á toppnum ásamt Manchester City og Wolves en er reyndar í 2. sætinu á eftir City þar sem United-liðið er með lakari markatölu.

Danny Welbeck er að nýta tækifærið sitt vel því hann skoraði fyrsta markið og lagði síðan upp annað markið fyrir Anderson. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en leikmenn United sýndu styrk sinn í seinni hálfleiknum og skoruðu öll mörkin sín á síðasta hálftímanum.

Manchester United er búið að vinna þrjá fyrstu leiki tímabilsins en þetta var í fyrsta sinn sem Spánverjinn David De Gea heldur marki sínu hreinu. Áður hafði United unnið 3-2 sigur á Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn og 2-1 sigur á West Brom í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Danny Welbeck kom Manchester United í 1-0 á 61. mínútu með laglegum skalla eftir fyrirgjöf frá Tom Cleverley. Annað markið kom fimmtán mínútum síðar eftir frábæra sókn sem endaði á því að Welbeck gaf hælspyrnu á Anderson og Brasilíumaðurinn átti í engum vandræðum með að skora. Ashley Young og Wayne Rooney áttu líka þátt í undirbúningi marksins.

Wayne Rooney innsiglaði síðan sigurinn á 87. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Ryan Giggs sem hafði skömmu áður komið inn á sem varamaður.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×