Enski boltinn

Chicharito bíður eftir græna ljósinu frá Sir Alex

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier „Chicharito" Hernandez.
Javier „Chicharito" Hernandez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Javier „Chicharito" Hernandez er allur að koma til og það styttist í endurkomu Mexíkóbúans snaggaralega í Manchester United liðið. Það verður þó ekki fyrr en að Sir Alex Ferguson stjóri Manchester United, gefur grænt ljós.

Hernandez fékk heilahristing á æfingu í New Jersey í júlí og það var ekki í fyrsta sinn á ferlinum sem þessi 23 ára framherji fær slæmt höfuðhögg.  Hernandez hafði einnig fengið heilahristing þegar hann var yngri.

„Ég er búinn að vera að æfa með liðinu í þrjá eða fjóra daga en ég veit ekki hvenær ég kem aftur inn í hópinn. Ég hef alltaf sagt að það sé stjórinn sem tekur þessar ákvarðanir en mér líður mun betur núna," sagði Javier "Chicharito" Hernandez og rifjaði upp hvað gerðist í júlí.

„Ég var bara að skalla boltann en hitti hann ekki vel. Ég fór aftur upp á hótel og borðaði en fór síðan að finna fyrir ógleði. Ég fór upp á herbergi til að hvíla mig en seinna þurfti ég að kalla á lækni og þeir fóru með mig upp á sjúkrahús," sagði Hernandez.

„Ég þarf bara að horfa fram á veginn, ná upp sjálfstraustinu á ný og fara að skalla boltann aftur," sagði Hernandez en hann sló í gegn á sínu fyrsta tímabili með Manchester United og skoraði 20 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×