Enski boltinn

Lineker tryggði Tottenham sinn síðasta sigur á Old Trafford

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er óhætt að segja að líkurnar séu ekki með Tottenham sem sækir Manchester United heim í lokaumferð 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í kvöld. Tottenham vann síðast sigur á Old Trafford árið 1989 þegar Gary Lineker skoraði eina mark leiksins.

Lineker var reyndar einnig á skotskónum á Old Trafford árið 1992 í sínum síðasta leik í enska boltanum áður en hann lauk ferlinum í Japan. Skalli hans yfir Peter Schmeichel dugði ekki til í 3-1 tapi gegn United.

Tottenham hefði með öllu eðlilegu átt að vinna sigur í viðureign félaganna á Old Trafford keppnistímabilið 2004-2005. Þá missti Roy Carroll, markvörður United, boltann langt yfir línuna eftir skot Portúgalans Pedro Mendes frá miðlínu. Atvikið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tottenham hefur ekki sigrað United í öllum 20 viðureignum félaganna í úrvalsdeildinni og fimm viðureignum þar á undan í gömlu 1. deildinni. Þá hefur United verið óstöðvandi á heimavelli undanfarið ár og vann 18 heimaleiki af 19 á síðasta tímbili.

Gareth Bale, leikmaður Tottenham, hefur gefið út að leikmenn liðsins ætli að láta vaða á mark United. David de Gea, hinn ungi markvörður Englandsmeistaranna, hefur virkað ótraustur í fyrstu leikjum sínum fyrir félagið.

Leikurinn í kvöld er fyrsti leikur Tottenham í úrvalsdeildinni á tímabilinu. Viðureign liðsins og Everton í 1. umferð var frestað vegna óeirðanna í London.

Luka Modric er utan hóps Harry Redknapp en knattspyrnustjórinn segir að hugarástand Modric þessa dagana sé ekki rétt. Modric hefur ítrekað verið orðaður við brottför frá Tottenham, fyrst til United en nú þykir Chelsea líklegasti áfangastaðurinn.

Leikur Manchester United og Tottenham hefst klukkan 19 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×