Enski boltinn

Liverpool opnar akademíu í Indlandi - vill spor sín í öllum heimsálfum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steve McMahon við opnunina á Indlandi í dag.
Steve McMahon við opnunina á Indlandi í dag. Nordic Photos/AFP
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool opnaði í dag sína fyrstu knattspyrnuakademíu á Indlandi. Félagið segist vilja hafa þess konar fótspor í öllum heimsálfum fyrir árið 2014.

„Við viljum marka spor í öllum heimsálfum á næstu þremur árum,“ sagði Steve Turner yfirmaður alþjóðaknattspyrnuakademíu Liverpool. Turner er á leið til Kína ásamt markahróknum fyrrverandi Ian Rush.

„Kína er næst á dagskrá og við eigum einnig í viðræðum um samstarf í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum, Kanada, Víetnam og Malasíu,“ bætti Turner við.

Evrópsk félagslið hafa verið dugleg að herja á Asíumarkað undanfarin ár. Ensk úrvalsdeildarlið hafa verið einna duglegust og sótt Asíu heim á undirbúningstímabilinu en áhugi á ensku úrvalsdeildinni er mikill í Asíu.

Steve McMahon, fyrrum leikmaður Liverpool og enska landsliðsins, verður yfirþjálfari í akademíunni í Indlandi. Fyrirhugað er að reisa fjórar knattspyrnumiðstöðvar í Delhi og nágrenni borgarinnar. Þá verða fleiri miðstöðvar reistar víðsvegar um landið næstu 18 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×