Enski boltinn

Nasri baunar á stuðningsmenn Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samir Nasri í sínum síðasta leik með Arsenal - gegn Liverpool um síðustu helgi.
Samir Nasri í sínum síðasta leik með Arsenal - gegn Liverpool um síðustu helgi. Nordic Photos / Getty Images
Samir Nasri segir stuðningsmenn Manchester City búa yfir meiri ástríðu en stuðningsmenn Arsenal. Nasri gekk í gær til liðs við City eftir þriggja ára veru hjá Arsenal.

Nasri skrifaði undir fjögurra ára samning við City en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal. Í fyrstu vildi félagið ekki selja hann en ákvað á endanum á láta eftir.

„Þetta hefur verið langt ferli og viðræður hafa tekið langan tíma," sagði Nasri í samtali við enska fjölmiðla. „Ég er leikmaður City í dag og það er það sem ég vildi strax frá upphafi."

„Ég var orðinn svolítið pirraður á þessu því ég sagði stjóranum (Arsene Wenger) strax í upphafi að ég vildi fara. Ég var svo allt undirbúningstímabilið hjá Arsenal en hefði gjarnan vilja notað þann tíma tila ð kynnast liðsfélögum mínum hjá City."

„Það var vissulega pirrandi en þetta er nýtt upphaf fyrir mig og ég hlakka til að byrja."

Hann segir stuðningsmenn City minna sig á stuðningsmenn Marseille, þar sem Nasri var í upphafi ferilsins. „Arsenal á góða stuðningsmenn en þeir eru ekki jafn ástríðufullir og þeir voru áður en félagið flutti frá Highbury."

„Ég man þegar við töpuðum fyrir City 3-0. Þá voru stuðningsmenn City ótrúlegir. Það er það sem ég vil fá að upplifa - að spila knattspyrnu í skemmtilegu andrúmslofti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×