Enski boltinn

Bolton í viðræðum við City um kaup á Wright-Phillips

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wright-Phillips hefur fengið lítið að spila undanfarin ár hjá Chelsea og Man City.
Wright-Phillips hefur fengið lítið að spila undanfarin ár hjá Chelsea og Man City. Nordic Photos/AFP
Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, hefur staðfest viðræður félagsins við Manchester City um vistaskipti kantmannsins Shaun Wright-Phillips. Vikulaun Wright-Phillips hjá Manchester City eru hærri en Bolton eru tilbúnir að greiða. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

„Hann er leikmaður sem mig langar mikið að fá til félagsins. Hvort það sé gerlegt verður tíminn að leiða í ljós. Fjárhagslega hlið málsins er erfið. Leikmenn Manchester City eru á samningum sem við höfum ekki efni á að greiða. Við höfum hámark og getum ekki gert undantekningar,“ sagði Coyle.

Bolton er einnig orðað við Tuncay Sanli fyrrum framherja Stoke sem er á mála hjá þýska félaginu Wolfsburg. Coyle staðfestir að Bolton eigi í viðræðum að fá framherjann að láni.

„Það mál er langt komið en ekki frágengið. Hann er frábær leikmaður sem vinnur fyrir kaupinu sínu,“ sagði Coyle. Hann bætti einnig við að engin tilboð hefðu borist í miðvörðinn Gary Cahill sem hefur verið orðaður við stærri félög í sumar.

„Það kemur mér á óvart að ekkert tilboð hafi borist. Félögin hafa haft sex til sjö vikur. Ég hef fullkominn skilning á því ef félög leggja fram tilboð og vilja viðræður. Hvers vegna að bíða með það fram á síðustu stundu,“ sagði Coyle en félagaskiptaglugginn lokast 1. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×