Enski boltinn

Markalaust hjá Newcastle og Arsenal - Gervinho sá rautt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barton heldur um höfuð sitt eftir viðskiptin við Gervinho.
Barton heldur um höfuð sitt eftir viðskiptin við Gervinho. Nordic Photos/AFP
Fílabeinstendingurinn Gervinho mun seint gleyma sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Kappinn sá rautt í markalausu jafntefli Newcastle og Arsenal þar sem Joey Barton var í aðalhlutverki.

Leikurinn var frekar tíðindalítill og óhætt að segja að hann hafi ekki staðið undir væntingum. Viðureign liðanna á sama velli í fyrra lauk með 4-4 jafntefli í stórkostlegum knattspyrnuleik.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Þá féll Gervinho til jarðar í teig Newcastle, full auðveldlega að mati Barton sem sakaði Gervinho um leikaraskap.

Gervinho og Barton voru ekki á eitt sáttir. Viðskiptum þeirra lauk með því að Gervinho gaf Barton kinnhest og Barton féll til jarðar með miklum tilþrifum. Gervinho sá rautt og Barton gult.

Arsenal voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum en gekk illa að skapa sér færi. Peter Lovenkrands komst nálægt því að næla í stigin þrjú undir lokin en Koscielny bjargaði vel.

Fylgst var með gangi mála í Boltavaktinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×