Enski boltinn

Song og Gervinho fengu báðir þriggja leikja bann

Alex Song, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal, fékk þriggja leikja bann eftir að enska knattspyrnusambandið skoðaði atvik úr leik liðsins gegn Newcastle um s.l. helgi. Song steig harkalega á Joey Barton leikmann Newcastle og var myndbandsupptaka frá leiknum notuð þegar leikbannið var ákveðið. Gervinho, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir Arsenal fékk einnig þriggja leikja bann.

Bæði Arsenal og Newcastle þurfa einnig að greiða 25.000 pund í sekt, eða sem nemum um 4,7 milljónum kr., fyrir að hafa mistekist að hafa stjórn á leikmönnum í leiknum. Arsenal mun áfrýja úrskurðinum vegna leikbanns Gervinho, en félagið telur að refsingin sé of ströng. Gervinho lenti í deilum við Joey Barton sem endaði með því að landsliðsmaðurinn frá Fílbabeinsströndinni fékk rautt spjald fyrir að slá til Englendingsins.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur ekki úr mörgum miðjumönnum að velja í næstu leikjum. Song verður frá vegna leikbanns í næstu þremur leikjum, Cesc Fabregas er farinn til Barcelona, óvissa ríkir um framtíð Samir Nasri hjá Arsenal og Jack Wilshere er meiddur á ökkla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×