Enski boltinn

Wenger: Bendtner er ekkert farinn frá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner og Arsene Wenger.
Nicklas Bendtner og Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er ekki búinn að útiloka það að danski framherjinn Nicklas Bendtner spili áfram með liðinu en Bendtner var búinn að tilkynna það að hann væri að leita sér að nýju félagi.

„Bendtner sagði vissulega að hann væri farinn. Ég gáði þó betur og hann er ekkert farinn frá okkur. Ég lofaði honum því að hann mætti fara ef hann fyndi rétta félagið og það hefur ekkert breyst," sagði Arsene Wenger í viðtali í Daily Mirror.

„Þegar ég gef loforð þá stend ég við þau en ef hann finnur ekki rétta liðið þá verður hann hér áfram og berst fyrir sínu sæti í liðinu eins og aðrir. Hann lítur vel út á æfingum," sagði Wenger.

Nicklas Bendtner er 23 ára gamall og hefur verið á samningi hjá Arsenal síðan 2005. Hann var lánaður til Birmingham tímabilið 2006-2007 en hefur síðan skorað 45 mörk í 153 leikjum með Arsenal í öllum keppnum. Bendtner skoraði þó aðeins 2 mörk í 17 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×