Enski boltinn

Maxi Rodriguez hjá Liverpool: Samkeppni er af hinu góða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maxi Rodriguez.
Maxi Rodriguez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Argentínumaðurinn Maxi Rodriguez fagnar nýju leikmönnunum sem komu til Liverpool í sumar þrátt fyrir að þýði mun harðari samkeppni fyrir hann sjálfan. Rodriguez skoraði sjö mörk í síðustu fjórum leikjum sínum með Liverpool á síðustu leiktíð en var ekki í leikmannahópnum á móti Sunderland um helgina.

Kenny Dalglish keypti þá Jordan Henderson, Charlie Adam og Stewart Downing til Liverpool í sumar og þeir eru allir í beinni samkeppni við Maxi Rodriguez um sæti á miðju Liverpool-liðsins. Þá má ekki gleyma þeim Raul Meireles, Alberto Aquilani, Lucas og Jay Spearing sem gera líka allir tilkall til sætis í Liverpool-liðinu.

„Samkeppni er alltaf af hinu góða fyrir lið og ég tel að það séu frábærar fréttir fyrir félagið að þessir hæfileikaríku leikmenn séu allir komnir hingað. Nú þarf stjórinn að ákveða hvaða ellefu leikmenn eru bestir. Hann ákveður þetta en við munum allir vonast til að vera meðal þessarra ellefu," sagði Maxi Rodriguez.

Maxi Rodriguez skoraði alls 10 mörk og gaf 1 stoðsendingu í 28 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann kom til Liverpool frá Atlético Madrid í upphafi ársins 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×