Enski boltinn

Enska bikarkeppnin í beinni á fésbókinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Ensku utandeildarliðin Ascot United og Wembley FC munu spila tímamótaleik í forkeppni ensku bikarkeppninnar á föstudagkvöldið því leikurinn verður sendur út í beinni á fésbókinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem fésbókin sýnir heilan leik í beinni frá elstu bikarkeppni í heimi en enska bikarkeppnin fagnar 140 ára afmæli sínu í ár.

Bjórframleiðandinn Budweiser er nýr styrktaraðili ensku bikarkeppninnar og stendur hann að baki útsendingarinnar en bæði félögin munu njóta góðs af "sjónvarpstekjum" vegna þessarar útsendingar.

Það komu 88 manns á síðasta heimaleik hjá Ascot United en miðað við útbreiðslu fésbókarinnar gætu margfallt fleiri kíkt á liðið á netinu á föstudaginn.

763 félög taka þátt í ensku bikarkeppninni í ár og lið Ascot United og Wembley FC munu þurfa að vinna þrettán leiki ætli þau sér að komast alla leið í úrslitaleikinn sem fer fram á wembley 5. maí 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×