Enski boltinn

Ecclestone að selja QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernie Ecclestone, eigandi QPR.
Bernie Ecclestone, eigandi QPR. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla er Bernie Ecclestone að selja sinn hlut í enska úrvalsdeildarfélaginu Queens Park Rangers. Nýi eigandinn, Tony Fernandes, er sagður hafa lagt fram fjögurra milljóna punda í Scott Parker, leikmann West Ham.

Talið er að QPR muni senda frá sér tilkynningu um sölu Ecclestone á sínum eignarhlut í félaginu. Ecclestone á 66 prósenta hlut í QPR en hin 34 prósentin eru í eigu Amit Bhatia, fyrrum varaformann stjórnar QPR.

Þeir Fernandes og Bhatia eru sagðir ætla að halda Neil Warnock í starfi knattspyrnustjóra en landslðismaðurinn Heiðar Helguson er á mála hjá QPR.

Ecclestone keypti QPR fyrir fimm árum síðan en félagið er nú nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Tilboðið í Parker er sagt vera upp á fjórar milljónir punda en West Ham mun vilja fá átta milljónir fyrir kappann.

Ecclestone er einn ríkasti maður Bretlands en hann er fyrst og fremstur fyrir að vera í forsvari fyrir Formúlu 1-mótaröðina. Hann keypti QPR ásamt Flavio Briatore árið 2007 en Ecclestone keypti svo hlutabréf Briatore í fyrra.

Fernandes er frá Malasíu og eigandi flugfélagsins AirAsia og annarra fyrirtækja. Hann er vitaskuld vellauðugur og er til að mynda forseti ABL-deildarinnar, sem er atvinnumannadeild í körfubolta fyrir lið frá suðausturhluta Asíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×