Enski boltinn

Daily Mail: Abramovich til í að eyða 60 milljónum í Modric og Mata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata.
Juan Mata. Mynd/Nordic Photos/Getty
Daily Mail heldur því fram í morgun að Roman Abramovich, rússneski eigandi Chelsea, sé tilbúinn að eyða stórum upphæðum í þá Juan Mata og Luka Modric sem hafa margoft verið orðaðir við Chelsea-liðið á síðustu vikum.

Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, hefur komið þeim skilaboðum til Roman Abramovich að hann þurfi á meiri sköpun að halda í sóknarleik liðsins og Rússinn hefur brugðist við kallinu.

Manchester City og Manchester United hafa bæði eytt yfir 50 milljónum punda í nýja leikmenn og það hefur komið á óvart hversu rólegir Chelsea-menn hafa verið á markaðnum.

Chelsea er nú að undirbúa 29 milljón punda tilboð í Juan Mata hjá Valencia og þarf síðan að hækka sig verulega til þess að sannfæra Tottenham um að selja Luka Modric en Totteham hefur þegar hafnað tilboðum upp á 22 og 27 milljónir punda.

Félagsskiptaglugginn lokar 31. ágúst og það er öruggt að Chelsea verður í sviðsljósinu fram að því. Roman Abramovich er nefnilega þekktur fyrir að láta til sína taka á lokasprettinum eins og í janúar þegar félagið keypti þá Fernando Torres og David Luiz fyrir 70 milljónir punda rétt áður en glugginn lokaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×